Markmiðið er að byggja upp hverfi sambærilegt að gæðum og Sjálandshverfið í Garðabæ. Byggingafélag Gylfa og Gunnars hefur staðið að þeirri uppbyggingu frá upphafi og byggt þar c.a 80% allra íbúða sem þar hafa risið. Á Kársnesi er þó gengið enn lengra í því að nýta nálægðina við hafið með uppbyggingu klúbbhúss fyrir Siglingafélagið Ýmir, sem stendur við smábátahöfnina í hverfinu. Nú þegar hefur klúbbhúsið verið tekið í notkun og starfsemi gengur vel. Þar er aðstaða til að taka inn báta til viðhalds auk veitinga- og félagsaðstöðu sem gerir þessa smábátahöfn iðandi af lífi.
Húsin verða þrjár – fjórar hæðir næst ströndinni og að tanga við smábátahöfnina en fara í fjórar – fimm hæðir innar á landinu. Hæðir húsanna verða þannig að útsýni verði úr sem flestum íbúðum og skuggamyndun verði sem minnst. Húsaþyrpingar verða flestar byggðar í kringum garða sem opnast í sólarátt. Áhersla er lögð á að sem flestar íbúðir njóti útsýnis yfir voginn og einnig rólegs umhverfis í görðum.
Austan svæðisins er náttúrleg fjara sem verður áfram óhreyfð og svæðið sem kallað er Höfði er undir bæjarvernd. Strandlengjan verður öll opin almenningi en hverfið verður kjörsvæði fyrir náttúruunnendur með gangstíg meðfram ströndinni og útsýni yfir voginn, Nauthólsvík og Öskjuhlíð. Stígurinn verður tengdur gangstígakerfi höfðuborgarsvæðisins og mun því verða falleg viðbót fyrir alla.
Samkvæmt gildandi skipulagi verða um 400 íbúðir í strandhverfinu Kársnesi.
Í Reykjanesbæ er Byggingafélag Gylfa og Gunnars að byggja 500 íbúðir í hverfi sem nefnist Hlíðarhverfi.
Fyrsti áfanginn hefur nú verið kláraður og allar eignir þar seldar.
Framkvæmdir við annan áfanga eru komnar á fullt og má sjá skipulag hans á myndinni hér fyrir neðan.
Til að skoða skipulagið á PDF formi, smellið hér.
Til að skoða deiliskipulag hverfisins, smellið hér.
Við Lund í Fossvogsdal byggir BYGG hf. hátt í 400 íbúðir fyrir almennann markað.
Smellið á yfirlitsmyndina hér fyrir neðan til að fá stærri útgáfu:
Bygg er aðalverktakar að Norðurturn Smáralindar sem verður 15 hæða verslunar- og skrifstofuhúsnæði með kjallara, samtals um 17.000 m² að flatarmáli, hæð um 60m, en samhliða og vestan við turninn verður byggt 3ja hæða bílastæðahús með um 800 bílastæðum.
Þá verður byggð tengibygging sem tengir tvær neðstu hæðir Norðurturnsins við verslunarmiðstöðina Smáralind og loks glerlyftuhús sem mun tengja skrifstofusvæðið á 3. hæð í verslunarmiðstöðinni við bílastæðahúsið.
Arnarnesvogur er fjölbreytilegri en flestir vogar á höfuðborgarsvæðinu. Kemur þar margt til. Gálgahraun flæðir inn í hann að suðvestan og óvenjuleg fjara tekur við af hrauninu sunnan hans. Vogurinn er víður eða um 1,6 km á breidd en benda má á að breidd Kópavogs er aðeins hálfur km. Glæsileg einbýlishúsabyggð er á Arnarnesi norðaustan vogsins. Útsýni í norður yfir byggð og fjallhring er í senn vítt og vinalegt. Mjög lítil alda nær inn á voginn og Hraunsholt veitir skjól fyrir landssynningi.
Deiliskipulag svæðisins hefur nú verið samþykkt. Um er að ræða lága byggð sem félli vel inn í landslagið , enda er það aðalauðkenni Garðarbæjar, sem eðlilegt er að virða. Hugmynd sú sem hér er framsett felur í sér að hverfið verði aðallega byggt meðfram sjávarsíðunni.
Uppfylling og kví sem nú eru á staðnum verði framlengd út í voginn og mynduð lítil bátahöfn í skjóli nýja tangans sem við það myndast. Á tanganum verður til fallegt byggingarland, þar sem rísa mun hluti hins nýja hverfis, en þaðan má njóta stórkostlegs útsýnis til allra átta.
Meginhluti bygginga verður íbúðir, en einnig verða í hverfinu dagheimili, leik- og sparkvellir auk verslunar og hvers konar þjónustu.
Fjaran vestan megin í voginum verður að sjálfsögðu óhreyfð og opin öllum íbúum bæjarins. Nýja strandlengjan, sem mótuð verður, og að sjálfsögðu höfnin og torg hennar verða opin almenningi. Á torginu mætti gjarnan standa söluturn eða önnur smáþjónusta.
Bílastæðum yrði komið þannig fyrir að um 2/3 þeirra yrðu í bílageymslum undir húsum en hin meðfram götum og þar til hönnuðum aðkeyrslum. Þannig yrði tryggt að íbúðir og umhverfi væru í háum gæðaflokki. Garðar sem sýndir eru á myndum yrðu lokaðir fyrir bílum og er íbúum þar með búið rólegt og umhverfisvænt útivistarsvæði auk fagurs umhverfis.
Fögur íbúðarbyggð í Arnarnesvogi mun styrkja ímynd Garðabæjar, tengja byggðina betur saman og treysta enn betur miðbæjarsvæðið og þar með bæjarlífið.
Við Strikið 1 í Sjálandi Garðabæ byggir Byggingarfélag Gylfa og Gunnars 42 íbúðir fyrir 60 ára og eldri.
Stærðir íbúða eru frá 84 til 174 m2, 2ja og 3ja herbergja. Hverri íbúð fylgir bílastæði í lokaðri bílageymslu.
Fyrstu íbúðirnar verða afhentar kaupendum mars/apríl 2019.