09.09.2020

 

Fjölbýlishúsahluti Lundar er gata ársins í Kópavogi í ár. Af því tilefni afhjúpaði forseti bæjarstjórnar, Margrét Friðriksdóttir, skilti þar sem kemur fram að Lundur sé gata ársins.

Auk þess að útnefna Lund götu ársins í bænum gróðursettu Margrét og Kristján Pálsson, formaður íbúasamtaka Lundar, tré á svæðinu.  Viðstaddir voru m.a. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, og Andri Steinn Hilmarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar.


Bæjarstjórn Kópavogs velur ár hvert götu ársins í Kópavogi að fenginni tillögu umhverfis- og samgöngunefndar bæjarins. Fjölbýlishúsahluti Lundar varð fyrir valinu „enda gatan samsett af fallegum byggingum, grænu yfirbragði og umhverfi sem er heillandi og tekur vel á móti íbúum og gestum“, eins og fram kom í rökstuðningi nefndarinnar.